Kærar hjartans þakkir

Lífið er óttaleg endurtekning. Oftast. Fólk fæst við það sama frá degi til dags. Horfir á sjónvarpið, horfir á tölvuskjá, spjaldtölvuskjá, snjallsímaskjá, skammar börnin, borðar, eldar, hittir vini, talar, gengur, keyrir o.s.frv. Líkast til er líf flestra nokkuð vanafast og litast af vinnu. Vinnan, brauðstritið, lífsbaráttan er alltaf fremur fyrirferðarmikil í lífi fólks þótt baráttan um brauðið taki, góðu heilli, ekki eins mikinn toll, sé ekki eins fyrirferðarmikil og hún var í eina tíð. Nú, þeir sem eiga börn þurfa að sinna þeim, keyra á leikskólann, keyra í skólann, fæða, klæða, píska þau svo heimavinnan sé gerð o..s.frv. 

Fyrir flesta, skyldi maður ætla, er lífið laust við hádramatísk atvik, laust við að steypast á hvolf, laust við háspennu, lífshættu þótt svona lagað nokk krefjist jú á tíðum skilgreiningar. Það er jú allur gangur á því hvað fólki finnst háskalegt. Það er allur gangur á því hvað fólk upplifir sem dramatík eða hvað snýr lífi fólks á hvolf. En látum skilgreiningar liggja milli hluta. Þessum stúf er ekki ætlað það hlutverk.

Lífið er vissulega oftlega endurtekningarsamt og vanafast, einkum eftir því sem árunum fjölgar og færri hlutir koma manni á óvart. Maður leyfir öllu heldur lífinu á sjaldnar að koma sér á óvart með hækkandi aldri. Þótt sú kunni að vera raunin getur víst æ sitthvað bjátað á. Flestir fara ekki varhluta af því. Sá aðili hlýtur að teljast vandfundinn sem ekki hefir á einhvern máta komst í hann krappann, lent í erfiðleikum hvernig svo sem skilgreina má þá erfiðleika, hvort þeir teljist léttvægir eður þungbærir. Það er óhætt að halda því fram.

Fjölskylda mín, eins og margar fjölskyldur, hefir ekki farið varhluta af því að lífið býður ekki alltaf upp á sólskin. Vissulega rignir á tíðum, vissulega er stundum stormasamt, vissulega kann ýmislegt ófyrirséð að gerast, óvelkomin erfið atvik eiga sér stað, atvik sem kunna að koma manni í torvelda stöðu og hafa jafnvel bölsöm áhrif á sálarhróið. Bringsmalaskotta á það meira að segja til að gera vart við sig. Sé notast við tuggu þá skiptast á skin og skúrir í lífi okkar eins og annarra.

Undanfarið hefir vætutíðin verið talsvert fyrirferðarmeiri í lífi fjölskyldu minnar. Og án þess að útlista þá vætutíð út í hörgul má segja að heilsa eins fjölskyldumeðlims mætti sannlega vera betri. Sá meðlimur varð fyrir heilsubresti og þar sem téður aðili er barn að aldri hefir heilsubresturinn víðtæk áhrif. Barnið þarf að gangast undir allslags inngrip svo það megi ná heilsu á ný, inngrip sem fullorðnum reynast þung í skauti, hvað þá börnum.

Örlögin hafa og hagað málum þannig að fullvaxta fjölskyldumeðlimir hafa átt erfitt með að inna vinnu af hendi og raunar hefir verið erfitt annað en að einbeita sér sem mest maður má að því barni sem kvillinn illi hrjáir, þótt vissulega megi hin börn okkar þrjú ekki sitja á hakanum.

Og þá loksins að eiginlegri ástæðu þessara skrifa. 

Við viljum segja takk, takk fyrir, kærar þakkir, kærar hjartans þakkir. 

Þannig er nefnilega mál með vexti að við höfum fundið fyrir miklum hlýhug svo og notið góðs af hjálpsemi fólks, samtaka og félaga hér fyrir vestan og reyndar fyrir sunnan líka. Aukinheldur hefir okkur veist fjárhagslegur stuðningur sem vinnur gegn vinnutapi. Ekki er heldur hægt að saka hið opinbera um að standa ekki sína plikt. 

Lækna- og hjúkrunarteymið er svo sér kapítuli út af fyrir sig svo og það yndislega, yndislega, yndislega fólk sem tók þau börn okkar að sér sem ekki glíma við sjúkleika þegar við foreldrarnir þurftum að bregða okkur úr landi um hríð í kjölfar veikindanna. Þvílík óeigingirni og hjálpsemi fær mann til að klökkna og komast ansi nálægt því að brynna músum.

Við höfum alltént tvímælalaust komist að því að enginn er eyland og það meira að segja í okkar tilfelli sem eigum eiginlega ekkert bakland hér fyrir vestan og vissum ekki betur en við værum nokkuð undir radarnum innan samfélagsins. Það verður og að játast að liðsinnið kom okkur á óvart og við erum sannlega meyr.

Nú er ég ekkert sérstaklega mikið fyrir tuggur og kappkosta einatt að tjá mig á máta sem eigi má spyrða saman við troðnar slóðir. Þrátt fyrir það held ekki sé annað hægt en að tala um ljós í myrkri, um hlýja birtu og já um anda jólanna og kristilegt hugarþel þegar tæpa á á þeim vinarhug og hjálpfýsi sem við höfum mætt. 

Það er deginum ljósara að samfélagið, notum bara það orð, er ekki sofandi, eða svo fast í viðjum vanans að það lætur sig ekki raunir náungans varða og það án þess að sá raunamæddi hafi æskt eftir liðsinni. Samfélagið er vakandi og fæ ég ekki betur séð en að það vilji láta gott af sér leiða. Svo má heldur ekki gleyma því að það fólk sem við höfum leitað til hefir klárlega sýnt góðmennsku sína í verki. 

Er ekki ágætt að eitthvað svona komi fram á tímum þar sem svo auðvelt er að fá á tilfinninguna að mannskepnunni sé ekki viðbjargandi í ljósi allra þeirra hörmungarfrétta sem herja á okkur dagsdaglega; fréttir um stríð, kynferðislegt ofbeldi, hryðjuverk, kynþáttafordóma og raunir Hollywood-eiginkvenna og ðe Kardashians og ensku konungsfjölskyldunnar .

Jæja, best að fara að setja botninn í þetta þótt þessi endir kunni að virka nokkuð snubbóttur. 

Ég, sem í drambi, oflæti og gorgeir mínum, tel mig sæmilega orðhagan mann, skortir klárlega orð til að lýsa þakklæti mínu, þakklæti fjölskyldunnar og klykki út með að óska öllum gleðilegra jóla og almennrar farsældar ekki bara næsta ári heldur ávallt. 

Orð megna lítils þegar kemur að því að tjá þakklæti okkar.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, Ísafirði.

DEILA