Ísafjörður: þétting byggðar á Eyrinni í auglýsingu

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að auglýst verði tilllaga um skipulagsbreytingu um íbúðabyggð á landfyllingu norðar Skutulsfjarðareyrar. Vinnslutillaga var í kynningu frá 1. júlí 2022 og einnig kynnt almenningi á opnum íbúafundi í september 2022.

Samkvæmt tillögunni verða 200.000 rúmmetrar af efni sem dælt verður upp í Sundahöfn notað í landfyllingu norðan Eyrarinnar. Verður við það til 4,5 hektara svæði. Af því eru 3,8 hektarar ætlaðir undir íbúðabyggð og eru þar áformaðar allt að 150 íbúðir. Segir í tillögunni að gert sé ráð fyrir þéttingu byggðar í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Landfylling norðan Eyrar er sögð auka fjölbreytni íbúðarsvæða og íbúðarhverfa á Ísafirði og sé líklegt til að styrkja Eyrina í sessi. Útsýni af svæðinu er sagt gott og það liggi vel við innviðum. Stutt er í þjónustu á Eyrinni og er það sagt líklegt til að draga úr bílanotkun.

DEILA