Hugmyndasamkeppni varðandi nýtingu vatnstanks

Vatnstankurinn fyrir ofan kirkjuna á Hólmavík

Á Hólmavík er vatnstankur sem hætt er að nota og er hann áberandi þar sem hann stendur ofan við kirkjuna.

Af og til í gegnum tíðina hafa komið upp hugmyndir um nýtingu tanksins og hefur þá gjarnan verið horft til þess að gera þar útsýnispall eða kaffihús.  Einnig hafa komið fram hugmyndir um að nýta tankinn að innan undir safn.

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill nú fanga þessar hugmyndir sem og aðrar og kallar því eftir hugmyndum um nýtingu tanksins. 

Í hugmyndinni skal koma skýrt fram;

  • Hver nýting tanksins yrði
  • Umfang uppbyggingar
  • Gróft kostnaðarmat
  • Áætlaður tímarammi framkvæmda. 

Einnig skal þar koma fram hvaða kvaðir og/eða framkvæmdir sveitarfélagið þyrfti að legga í, svo hugmyndin myndi ná fram að ganga.  Hér er átt við innviði eins og aðgang að vatni, frárennsli, rafmagni o.s.frv.


Af hálfu sveitarfélagsins eru eftirfarandi kröfur gerðar og forsendur settar:

  1. Tímarammi. Verkefnishafi, skal ljúka verkinu innan 3ja ára frá undirskrift samnings.  Standist tímaáætlun ekki, hefur sveitarfélagið rétt til að innheimta dagsektir
  2. Nærumhverfi. Verkefnið nær til tanksins og nærumhverfis hans, sem skal skilgreint í verksamningi.  Á því svæði má gera ráð fyrir göngustígum, bekkjum, sætum en ekki mannvirkjum, söluskálum eða þess háttar
  3. Umhverfisspjöll.  Verkefnishafi skal tryggja frágang á umhverfi að framkvæmdum loknum.
  4. Mengun. Starfsemin skal ekki skapa mengun af neinu tagi
  5. Sagan. Saga Tanksins og staða hans í mannlífi á Hólmavík skal virt í hvívetna.

Formlegum og vel útfærðum hugmyndum skal skilað á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt „Tankurinn – hugmyndasamkeppni“ fyrir 1. febrúar 2023.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að taka eða hafna hvaða tillögu sem er.

DEILA