Fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast á tíu árum

Samkvæmt manntali 2021 voru innflytjendur á Íslandi alls 52.541 eða 14,6% af heildarmannfjölda.

Í síðasta manntali, sem tekið var 31. desember 2011, voru innflytjendur alls 24.398 eða 7,7% íbúa. Fjöldi innflytjenda hefur þannig tvöfaldast frá manntalinu 2011 en heildarfjölgun íbúa á Íslandi var 13,8% á tímabilinu.

Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í dag.

Í manntalinu 2011 var hæst hlutfall innflytjenda á Vestfjörðum (10,8%) og næst hæst á Suðurnesjum (10,5%).

Árið 2021 var hlutfallið hins vegar hæst á Suðurnesjum (23,1%) og næst hæst á Vestfjörðum (17,1%). Innflytjendum fjölgaði í öllum landshlutum milli manntala, mest á Suðurnesjum (181%) en þar var einnig mest fjölgun heildarmannfjöldans (28,2%).

Minnst hlutfallsleg fjölgun innflytjenda var á Vestfjörðum (61,4%) en þar var fjölgun heildarmannfjölda 1,6% milli manntala.