Skólaakstur í Skutulsfirði: skilgreina hverjir eigi rétt á akstri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fjallaði öðru sinni um skólaakstur í Skutulsfirði á fundi sínum í vikunni. Vandinn er að skólabíllinn er yfirfullur og hefur fræðslunefnd bæjarins samþykkt að fækka stoppistöðvum um þrjár, sem eru innan 800 metra radíusar frá Grunnskóla Ísafjarðar. Bæjarráðið vildi þá kanna hvort unnt væri að fá stærri rútur til að sinna skólaakstrinum, en núna er notast við 55 manna rútur.

Verktakinn notast hins vegar ekki við stærri vagna yfir vetrartímann en 55 manna, þar sem þær ráða að hans mati illa við hálku. Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs segir í nýju minnisblaði að þessi möguleiki sé ekki því fyrir hendi.

Staðan núna er þannig, segir í minnisblaðinu, að skólabílarnir eru ekki lengur yfirfullir því bílstjórar hleypa aðeins inn jafn mörgum börnum og mega vera í bílnum. Fá þá börn úr Holtahverfi forgang inn í bílinn og svo börn sem búsett eru innan við Miðtúnsbrekkuna. Þetta hefur orðið til þess að börn búsett fyrir utan Miðtúnsbrekkuna hafa ekki fengið sæti í skólabílnum.

Sviðsstjórinn segir að breyta þurfi reglum um skólaakstur í Ísafjarðarbæ þannig að skýrt verði hverjir eiga rétt á honum sem yrði helst með því að ákveða lágmarksvegalengd frá lögheimili að skóla.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að útfæra tillögu um breytingu á reglum um skólaakstur, þannig að settar verði inn lágmarksfjarlægðir frá skóla til heimilis barna varðandi rétt til skólaaksturs, auk þess að útfæra tillögu á breytingum á stoppistöðvum almenningssamgangna, og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Fundur verður í bæjarstjórn í dag.

DEILA