Reykjavíkurborg: krefst 5,4 milljarða króna framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Reykjavíkurborg krefst 5,4 milljarða króna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næsta ári.

Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar við fjárlagafrumvarps næsta árs að borgin krefst þess að fá 5.418 milljónir króna framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til reskturs grunnskóla. Telur borgin að þegar rekstur grunnskóla var fluttur fra ríki til sveitarfélaga árið 1996 hafi borgin ekki fengið næga tekjustofna til þess að standa undir verkefninu. Vanfjármögnunin hafi svo vaxið jafnt og þétt í gegnum árin m.a. vegna aukinna krafna sem rekja megi til laga, reglugerða eða reglugerðabreytinga án fjármögnunar. Sérstaklega er nefnt einsetning grunnskóla, skóli án aðgreiningar og þjónusta við nemendur af erlendum uppruna.

Borgin hefur stefnt ríkinu fyrir dómstóla og krefst þess að fá almenn jöfnunarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla.

Af hálfu ríkisins hefur því verið lýst yfir að ekki verði aukið við framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðsins og ef Reykjavíkurborg fengi sitt fram myndi það skerða grunnskólaframlög sjóðsins til annarrra sveitarfélaga.

Samkomulag varð milli sveitarfélaga og ríkisins árið 1996 um flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Var útsvarsprósenta allra sveitarfélaga hækkuð um 2,33% sem er það sem Reykjavíkurborg taldi sig þurfa til þess að taka að sér rekstur grunnskólans. Tekjuskattsprósentan til ríkisins var lækkuð sömu tölu. Í samkomulaginu var jafnframt 0,77% af útsvarsprósentu fært af tekjuskatti og lagt inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna til þess að mæta kostnaði annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur sem reiknaður var hærri á hvern nemanda vegna minni hagkvæmni.

DEILA