Kobbi Láka kominn með haffærniskírteini

Kobbi Láka í Bolungarvíkurhöfn.

Björgunarbáturinn Kobbi Láka í Bolungavík er kominn með haffærniskírteini. Birgir Loftur Bjarnason formaður Björgunarsveitarinnar Ernis staðfesti það í samtali við Bæjarins besta.

Báturinn kom til landsins frá Noregi þann 18. júlí. þegar leitað var eftir skráningu kom í ljós að báturinn er ekki búinn sérstökum búnaði til sjálfréttingar og fékkst ekki skráning hjá Samgöngustofu.

Fyrir helgina fékkst haffærniskírteini til 6 mánaða og er því björgunarbáturinn loksins löglegur ef til útkalls kemur. Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að endurskoða viðeigandi reglugerð og er þess vænst að því verði lokið innan þessa tíma.

Birgir Loftur segir að enginn björgunarbátur á Íslandi uppfylli þær kröfur um sjálfréttibúnað sem gerð er krafa um og það geti ekki gengið að aðeins Kobba Láka sé neitað um skráningu, annað hvort eigi allir að uppfylla reglugerðina eða þá enginn. Hann benti á að Kobbi Láka hefði verið með gilt haffærniskírteini í Noregi.

DEILA