Hvað gerir Mexíkó svo frábrugðið Íslandi?

Judith Þorbergsson Tobin

Föstudaginn 11. nóvember flytur Judith Þorbergsson Tobin erindi í Vísindaporti Háskólaseturs.

Um erindið segir hún: „Hvað er það sem gerir Mexíkó svo öðruvísi en Ísland? Eru það pálmatrén, hitinn, fólksfjöldinn, hávaðinn, litríkið og aðrir sýnilegir hlutir? En hvað býr undir þessum sýnilegu hlutum? Eftir að hafa búið á Íslandi í þrjá áratugi og síðan í Mexíkó í sjö ár, flutti ég aftur til Íslands og varð fyrir menningaráfalli sem kom mér svo innilega á óvart. Ég mun segja frá mínum hugmyndum og minni upplifun í gegnum sögur og myndir.“

Judith Þorbergsson Tobin, kölluð Judy, er fædd í London, ólst upp í fallegri breskri sveit og flutti svo til Reykjavíkur árið 1989 með þáverandi íslenskum manni sínum sem hún kynntist í Guildhall School of Music þegar þau voru bæði í námi þar. Hún á þrjú uppkomin börn sem ólust upp á Íslandi.

Judy er m.a. píanóleikari, kórstjóri, faggotleikari, organisti og kennari. Hún vann í Tónskóla Sigursveins til margra ára, ásamt því að prófdæma fyrir íslensku prófdómaranefndina. Auk þess spilaði hún m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni, Caput, Bachsveitinni í Skálholti, ReykjavíkBarokk og með óteljandi kórum og í kirkjum sem organisti.

Árið 2015 flutti hún til Mexíkó með núverandi manni sínum. Þar var hún prófessor við tónlistarháskólanum „Academia de Arte de Florencia“ og kenndi einkatíma og sinnti ýmiskonar spilamennsku. Judy flutti til Ísafjarðar í ágúst á þessu ári og kennir píanó við Tónlistarskóla Ísafjarðar en starfar einnis sem undirleikari hjá Karlakórnum Erni og Kvennakór Ísafjarðar. 

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á íslensku.

DEILA