Flateyri: 10,6 m.kr. í einkavæddar almenningssamgöngur

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun hefur gert samning við Ísafjarðarbæ um 10,6 m.kr. fjárframlag af byggðaáætlun á næstu tveimur árum til þess að standa undir bættum almenningssamgöngum milli Flateyrar og Ísafjarðar með nýstárlegum hætti. Um er að ræða tilraunaverkefni sem byggt er á stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 – 2024. Markmiðið með aðgerðinni er að styðja við þróun almenningssamgangna,sérstaklega út frá byggðalegum sjónarmiðum.

Ætlunin er að bæta þjónustu við íbúa Flateyrar. Horft verði til reynslu af verkefninu sem fordæmisgefandi fyrir aukna þjónustu við Suðureyri og Þingeyri. Um er að ræða niðurgreiðslu á mælisgjaldi umfram startgjald hjá leigubílum, með ákveðnum takmörkunum.

Verkefnið er háð eftirfarandi takmörkunum:

  1. Öllum með gild atvinnuréttindi til farþegaflutninga er heimilt að sinna þjónustunni.
  2. Þjónustan stendur til boða á þeim tíma þegar strætóferðir ganga ekki milli Ísafjarðar og
    Flateyrar (og minna/meira en 60 mínútur frá næstu ferð).
  3. Þjónustan er í boði milli Ísafjarðar og Flateyrar, í hvora átt sem er. Stoppistöð á Flateyri er
    Gunnukaffi við Hafnarstræti, og stoppistöð á Ísafirði er Pollgata, flugvöllur og Torfsnes.
  4. Einstaklingur (farþegi) sem hyggst fara milli Ísafjarðar og Flateyrar setur sig í samband við
    skráða leigubifreiðaþjónustu (ökumaður með gild atvinnuréttindi til farþegaflutninga), og
    pantar þjónustu á tilgreindum tíma, á milli tilgreindra staða (sbr. skilyrði um stoppistöðvar –
    ath. að heimilt er að fara styttra ef það hentar farþega).
  5. Ekki eru niðurgreiddar ferðir milli kl. 22.00 og 06.30.
  6. Mælst er til þess að farþegar reyni að samnýta leigubílaferðir eins og kostur er á milli staða.
  7. Þegar fjárheimildir tilraunaverkefnisins eru uppurnar skal Ísafjarðarbær tilkynna íbúum um lok
    verkefnisins, s.s. á vefsíðu og facebook-síðu sveitarfélagsins og á síðu Flateyrar, auk þess að
    tilkynna það skráðum ökumönnum leigubifreiða á norðanverðum Vestfjörðum.
    Ísafjarðarbær mun auglýsa pöntunarþjónustu á vef sínum, auk þess sem verkefnastjóri á Flateyri mun
    kynna þjónustuna á Flateyri, m.a. á helstu facebook-síðum byggðarlagsins.

Gert er ráð fyrir að þjónustan hefjist 1. desember 2022 eða 1. janúar 2023.

DEILA