Fjárlagafrv 2023: 220 m.kr. lækkun framlaga til byggðamála

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Í umsögn Byggðastofnunar við fjárlagafrumvarp næsta árs kemur fram að framlög til byggðamála lækka um ríflega 220 m.kr. að raunvirði milli ára. Þau eru 1.905 m.kr. skv frumvarpinu.

Framlög til byggðamála dragast saman um 8,3% frá fjárlögum yfirstandandi árs og um 12,2% frá ríkisreikningi ársins
2021 á verðlagi hvers árs. Af lækkun fjárheimilda vegna sóknaráætlana eru 100 m.kr. vegna niðurfellingar á tímabundnu framlagi vegna neikvæðra áhrifa heimsfaraldurs á ferðaþjónustu og fækkun starfa. Miðað við 7,7% verðlagshækkun og að frádregnum áðurnefndum 100 milljónum kr. lækka nú framlög til um byggðamála um ríflega 220 milljónir á milli ára að raunvirði. Fjárlagaliðurinn atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni hefur frá árinu 2008 lækkað um 50% að raunvirði.

Byggðastofnun beinir því til stjórnvalda að við endurskoðun á gjaldtöku á ökutækjum verði horft til þess að hún vinni ekki gegn áherslu nýsamþykktrar byggðaáætlunar um eflingu atvinnu- og þjónustusvæða.

Byggðastofnun bar saman fjárlagafrumvarpið og samþykkta stefnumótandi byggðaáætlun og er mat stofnunarinnar að áherslur nýsamþykktrar stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036 sé í flestum tilfellum, þar sem það á við, að finna í markmiðssetningu ráðuneyta í fjárlagafrumvarpi næsta árs eða eftir atvikum í fjármálaáætlun.

DEILA