Fiskeldi: Vestfjarðastofa gagnrýnir ómarkvissa gjaldtöku

Sigríður Kristjánsdóttir. Mynd: Karl Eskil Pálsson.

Vestfjarðastofa er gagnrýnin á áform ríkisvaldsins um hækkun fiskeldisgjaldsins úr 3,5% í 5% af markaðsvirði sem hafi komið inn án nokkurs fyrirvara eða beinnar umræðu.  Sveitarfélögin hafa fremur horft til þess að umræða um fyrirkomulag og markmiðssetning gjaldtöku væri hluti stefnumótunarvinnu um málasviðið, sem matvælaráðherra setti af stað fyrr á þessu ári og sveitarfélögin hafa fagnað.  

Bendir Vestfjarðastofa á að engin svör hafi fengist frá ríkisvaldinu sem skýri hver stefnan er og reynt hafi verið að rýna svör Matvælaráðuneytisins um „samspil markmiðs um sjálfbæra nýtingu við stærð afgjalds af takmarkaðri auðlind“ án nokkurrar niðurstöðu. Eins hefur ekki skilað niðurstöðu að finna umfjöllun í svörum ríkisins , hver eru hin samfélaglegu sjónarmið og hvernig þau hafa áhrif á nærsamfélagið og samfélagið á Íslandi í heild.

Vestfjarðastofa segir í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið að engin ágreiningur sé um að greiða eigi afgjald af nýtingu takmarkaðrar auðlindar sem fiskeldissvæði í sjó eru. Rammi auðlindagjalda annars vegar og skiptingu þess á milli ríkis og sveitarfélaga (nærsamfélags) hins vegar sé mál er varðar samfélög á Vestfjörðum mjög miklu.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir það gagnrýnivert að gjaldtakan sé ekki tengd stefnumörkun fyrir fiskeldið sem Matvælaráðuneytið vinni að. Eðlilegt væri að vinna þetta samhliða. Í boðaðri hækkun sé ekkert tillit tekið til þess að fyrirtækin í fiskeldi séu í uppbyggingu og heldur væri ekkert um ráðstöfun gjaldsins til sveitarfélaganna , sem þurfa að byggja upp innviði til þess að þjónusta fyrirtækin.

DEILA