Fiskeldi: landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggst gegn fyrirhugaðri hækkun fiskeldisgjalds

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Mynd: xd.is

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði um helgina gegn fyrirhugaðri hækkun fiskeldisgjaldsins. Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þegar flutt lagafrumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að gjaldið hækki úr 3,5% í 5% af markaðsvirði laxins. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af gjaldinu aukist um 500 milljónir kr. árið 2023 vegna breytinganna.

Orðrétt segir í landsfundarsamþykktinni:

„Lagst er gegn fyrirhuguðum skattahækkunum á fiskeldi og hvatt til hóflegrar skatt- og gjaldheimtu svo gjaldtaka hamli ekki áframhaldandi vexti greinarinnar um allt land.“

Að öðru leyti segir í ályktuninni um fiskeldi:

„Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar bæði í sjókvía- og landeldi. Mikilvægt er að tryggja fyrirsjáanleika rekstrarumhverfis greinarinnar. Uppbygging á að byggjast á bestu vísindum og viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi og tillit tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Leggja ber áherslu á góða umgengni og öflugar smitvarnir svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Jafnframt er mikilvægt að fiskeldið myndi byggðafestu og að margfeldisáhrif greinarinnar skili sér sem mest inn í íslenskt hagkerfi.“

DEILA