Útflutningsverðmæti sjávarafurða 226 milljarðar

Á fyrstu 8 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 226 milljarða króna.

Það er um 18% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði 4% sterkara á fyrstu 8 mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra, sé tekið mið af gengisvísitölu Seðlabankans.

Aukningin er því nokkuð meiri í erlendri mynt, eða sem nemur rúmum 22%.

Af einstaka tegundahópum er aukningin á ofangreindu tímabili hlutfallslega mest í útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, eða um 45% á föstu gengi.

Eins er dágóð aukning í útflutningsverðmæti botnfiskafurða, rúm 13% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti flatfiskafurða dregst aftur á móti saman um rúm 10% á milli ára.

Að lokum má nefna að útflutningsverðmæti skelfisksafurða, sem er að langstærstum hluta rækja, eykst um 26% á föstu gengi.