Starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði flutt til ríkisins

Áformað er að flytja starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins. Meginmarkmiðið er að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en hlutverk stofnunarinnar er að innheimta meðlög.

Tillögur þessa efnis eru kynntar í greinargerð verkefnisstjórnar, sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði, á grundvelli viljayfirlýsingar ríkis og sveitarfélaga frá janúar 2021, til að skoða fýsileika á tilfærslu verkefna við innheimtu meðlaga frá sveitarfélögum til ríkisins. 

Eftirfarandi eru samanteknar tillögur verkefnisstjórnarinnar en nánari rökstuðning er að finna í meginmáli greinargerðarinnar sem og skýrslu Ríkisendurskoðunar:

 1. Ábyrgð á innheimtu meðlaga verði færð frá sveitarfélögum til ríkis.
 2. Teknar verði upp viðræður við dómsmálaráðuneytið um að sýslumaður sem innheimtumenn
  ríkissjóðs taki við verkefninu og horft verði til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi í þeim
  efnum.
 3. Staðinn verði vörður um starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga bæði á Ísafirði og á
  höfuðborgarsvæðinu.
 4. Þegar verði ráðist í lagalega yfirfærslu verkefnisins, ábyrgð færð frá sveitarfélögum til ríkis, en
  jafnframt verði útbúin verkefnaáætlun til 8-12 mánaða til að undirbúa yfirfærsluna.
 5. Samtal milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslegt uppgjör hefjist nú þegar.
 6. Staðin verði vörður um starfsöryggi og réttindi starfsfólks.
DEILA