Ofanflóðavarnir : 827 m.kr. í Ísafjarðarbær á 4 árum

Til ofanflóðavarna í Ísafjarðarbæ var varið 827,3 m.kr. á árunum 2018 – 2021. Árið var framkvæmt fyrir 552,8 m.kr., 35,9 m.kr. árinu síðar og aðeins 3,3 m.kr. árið 2020. Í fyrra jukust framkvæmdir að nýju og var þá varið 235,3 m.kr. til ofanflóðavarna.

Þetat kemur fram í nýútkominni skýrslu Ofanflóðanefndar fyrir árin 2018-2021.

Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði 14. janúar 2020 lögðu stjórnvöld áherslu á að auka fjárveitingar til framkvæmda Ofanflóðasjóðs og tvöfölduðust framlögin ári síðar. Framkvæmt var á landinu öllu fyrir 3 milljarða króna í fyrra en 1,5 milljarða króna árinu áður.

Ísafjarðarbær

Sérstakur kafli er um framkvæmdir í Ísafjarðarbæ á þeim tíma sem skýrslan nær til og birtist hann hér að neðan.

Hafin var vinna við frumathugun vegna ofanflóðavarna í Hnífsdal árið 2018. Sú athugun leiddi í ljós að fjarlægja þarf
Hádegisstein úr Bakka hyrnu, en ári síðar ályktaði bæjarráð gegn því að steinninn væri fjarlægður. Komið hefur verið fyrir festingum í steininn og sumarið 2020 var steypt undir hann til bráðabirgða. Áætlað er að vinnu við frumathugun vegna ofanflóðavarna í Hnífsdal ljúki 2022.
Árið 2018 var lokið við uppsetningu stoðvirkja í Kubba á Ísafirði. Sumarið 2020 hófst vinna við gerð stíga og áningarstaða við varnirnar undir Gleiðhjalla á Ísafirði að lokinni verðkönnun og útboði og lauk þeirri vinnu að mestu haustið 2021.
Ísafjarðarbær vakti í mars 2021 athygli á vandamáli vegna leysingarvatns neðan varna undir Gleiðarhjalla og eru hönnuðir varnanna með það til skoðunar hvernig bregðast skuli við.

Fjórtánda janúar 2020 féllu snjóflóð á Flateyri og Súgandafjörð sem ollu tjóni á mannvirkjum og hafnargörðum. Síðar í mánuðinum lagði Veðurstofan fram minnisblað með tillögum að verkefnum til að efla vöktun og viðbúnað á snjóflóðahættusvæðum, endurskoða mat á virkni snjóflóðavarnargarða og hættumat fyrir byggð neðan varnarvirkja.
Ísafjarðarbær fór í kjölfar flóðanna fram á að gert verði nýtt hættumat fyrir Flateyri og úttekt gerð á mögulegum endurbótum á varnargörðum og að Ofanflóðasjóður taki þátt í kostnaði við að verja hafnarmannvirki bæjarins. Samþykkt var að kosta viðbótarvinnu vegna frumathugunar fyrir hafnarsvæðið.
Veðurstofan vinnur að endurskoðun hættumats fyrir Flateyri og var verkfræðistofan Verkís fengin til að gera úttekt
á mögulegum endurbótum á ofanflóðavörnum og hugsanlegum varnarkostum vegna hafnarinnar. Eins er unnið að
endurskoðun hættusvæða, rýmingarsvæða og viðmiða um rýmingar. Sumarið 2020 var lokið við áfangaskýrslu um möguleika varðandi auknar varnir. Í nóvember sama ár var fundað með bæjarstjórn og haldinn íbúafundur þar sem farið var yfir stöðu mála varðandi endurskoðun hættumats, rýmingaráætlana og frumathugun endurbættra varna. Áætlað er að vinnu við frumathugunar um möguleika varðandi auknar varnir ljúki árið 2022. Unnið var að víkkun skeringarrásar við InnraBæjargilsgarð 2021 og uppsetning snjógirðinga uppi á Eyrarfjalli fer fram árið 2022.

DEILA