Jarðgangaskattur: hvorki skynsamlegur né réttlátur

Jóhann Páll Jóhansson, alþm.

Jóhann Páll Jóhannsson, alþingismaður í Reykjavík gagnrýndi á Alþingi í gær áform um sérstakt gjald á þá sem aka um jarðgöng. Sagði hann að þessi leið væri hvorki skynsamleg né réttlát.

Kvaddi hann sér hljóðs um störf þingsins og sagði fráleitar hugmyndir um „að íbúar sem keyra gegnum göng en ekki til dæmis yfir brú eða um mislæg gatnamót, séu skattlagðir eitthvað sérstaklega umfram aðra.“

Nefndi Jóhann Páll þessar hugmyndir ofurskatta á tiltekna notendur samgöngukerfisins og vísaði sérstaklega til „Vestlendinga, sem hafa nú þegar borgað að fullu fyrir Hvalfjarðargöngin, og hins vegar erum við að tala um íbúa á svæðum sem búa við landfræðilega einangrun og takmarkaða grunnþjónustu, hér gæti ég nefnt Vestfirði, Siglufjörð, Ólafsfjörð, Neskaupsstað.“

„Þetta mál snýst um grunninnviði í landinu og hvernig við fjármögnum þá“ sagði þingmaðurinn.

DEILA