Ísafjörður:leitað að jarðhita í Tungudal

Orkubú Vestfjarða hefur óskað eftir  rannsóknarleyfi vegna jarðhitaleitar í Tungudal í Skutulsfirði.Erindið er sent Orkustofnun sem síðan leitar eftir umsögn Ísafjarðarbæjar. Bæjarráðið vísaði málinu til umsagnar í skipulags- og mannvirkjanefnd sem hefur erindið til meðferðar.

Tilgangur rannsóknanna er að kortleggja jarðhitann á 500 metra dýpi en í fyrri rannsóknum var farið niður á 100 metra dýpi. Í Tungudal er að finna volgt vatn á litlu dýpi og vísbendingar eru um að möguleiki sé á heitara vatni. Hægt er að nota gamlar borholur en auk þess er áformað að bora þrjár nýjar holur. Vonast er til þess að unnt verði að aflokum þessum rannsóknum að staðsetja vinnsluholu sem næði 60 – 65 gráðu heitu vatni.

Í Tungudal hafa verið boraðar um 30 holur frá 1963 til 1998. Í skýrslu Íslenskra orkurannsóknar frá nóvember 2109 segir að lögð verði til jarðhitaleit sem miðast að því að skilja dreifingu og uppstreymi jarðhitans í Tungudal og þannig hámarka líkur á að hægt sé að afla heits vatns.

„Í raun er ekki enn ljóst hvaðan aðaluppstreymi jarðhitans er í Tungudal, hvort uppstreymið fylgir NV-SA sprungustefnunni sem víða er ríkjandi á norðan og norðvestanverðum Vestfjörðum, hvort líta beri á Valhöll og
Bræðratungu sem tvö aðskilin uppstreymi, þar sem uppstreymi á báðum stöðum er mjög þröngt, og/eða hvort til staðar er lárétt streymi sem skekkir þá sviðsmynd sem fengist hefur út frá hitamælingum í borholum.“

Áætlaður kostnaður við hverja holu er um 20 m.kr. samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni.

DEILA