Ísafjörður: stækkun Eyri í undirbúningi

Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur að athugun á stækkun hjúkrunarheimilisins Eyri á Ísafirði að beiðni Ísafjarðarbæjar. Verkís var fengið til þess skoða mögulegri staðsetningu nýrrar álmu hjúkrunarheimilisins Eyrar, miðað við aðstæður á lóð og samhengi við næsta nágrenni.

Hjúkrunarheimilið var opnað 2015 með 30 rýmum og var þá gert ráð fyrir möguleika á stækkun heimilisins um 10 rými við Hafnarstræti þar sem nú eru bílastæði og megin aðkoma. Gert var ráð fyrir að nýja álman tengdist heimilinu í gegnum aðliggjandi álmu en fallið hefur verið frá þeirri hugmynd.

Nú er miðað er við 650 m² stækkun á einni hæð sem tengist núverandi húsnæði en þó ekki í gegnum aðra álmu. Segir í skýrslu Verkís að áhersla er lögð á stuttar vegalengdir og gott flæði og aðgengi. Einnig að tekið sé mið af helstu sólaráttum, vindáttum og útsýni.

Litið er til tveggja mögulegra staðsetninga, þ.e. innan (suðvestan tillaga 3a) við núverandi byggingar eða neðan (austan – tillaga 2a) þeirra næst hringtorginu.

Tillaga 3a betri

Um þessar tvær hugmyndir segir báðar tillögurnar samræmist gildandi aðalskipulagi en kalli á breytingu á gildandi deiliskipulagi. Tillaga 2a er þó ekki í samræmi við áherslur deiliskipulagsins um að skyggja ekki á Gamla sjúkrahúsið.
Tillaga 3a mun skerða púttvöllinn en skoða mætti breytt fyrirkomulag hans. Tillaga 2a mun skerða útisvæði á lóð hjúkrunarheimilisins og auka á skuggamyndun þar. Tillaga 2a skyggir nokkuð meira á Gamla sjúkrahúsið en núverandi byggingar gera en hin tillagan 3a ekki.

Tillaga 3a skerðir nokkuð útsýni frá matsal sjúkrahússins en lítil skerðing er á útsýni frá vistarverum á hjúkrunarheimilinu. Tillaga 2a skerðir nokkuð útsýni frá vistarverum á hjúkrunarheimilinu.

Samandregin niðurstaða skýrslunnar er að tillaga 3a hafi fleiri kosti og færri neikvæð áhrif á nýtingu svæðisins en tillaga 2a. Einnig er nokkuð svigrúm til draga úr neikvæðum þáttum, s.s. hvað varðar áhrif á hljóðvist og útivist. Tillaga 3a fellur
jafnframt betur að gildandi skipulagi.

DEILA