Ísafjarðarbær: framkvæmdaáætlun skorin niður um 200 m.kr.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdaáætlun 2022 verði skorin niður um 200 m.kr. vegna framkvæmda sem ýmist er hægt að fresta á næsta ár eða ekki hægt að komast í. Með því verði hægt að lækka áætlaða lántöku á árinu um 170 m.kr. en á árinu 2022 var áætluð lántaka 400 m.kr.

241 m.kr. verðbólgukostnaður

Í minnisblaði fjármálastjóra kemur fram að áætluð verðbólga í fjárhagsáætlun 2022 sé 3%. En nú er áætlað að ársverðbólgan verði 8,5%. Af því leiði að hækkun verðbótagjalda á árinu 2022 verði 241 m.kr. umfram gjöldin í samþykktri áætlun 2022. Þau voru áætluð 113 m.kr. og hækka upp í 354 m.kr. í uppreiknaðri áætlun.

Læækun lántöku og niðurskurður á framkvæmdaáætlun eru til þess að lækka fjármagnskostnað. Langstærsti liðurinn í framkvæmdaáætluninni sem fellur niður á árinu er landfylling norðan Fjarðarstrætis um 160 m.kr. Tvær framkvæmdir á Hlíf falla út af áætluninni. Það eru 10 m.kr. framkvæmd við loftræstingu í kjallara og 2,5 m.kr. endurnýjun á baðherbergi, samtals 12,5 m.kr. Þá falla niður fjármunir 15 m.kr. til hönnunar á útivistarsvæði Tunguskógs/skíðasvæði, vegna aðalskipulags. Loks lækkar fjárveiting til skautasvells Ice-rink á Flateyri um 1 m.kr. og verður 4 m.kr.