Íbúum Vestfjarða fjölgar um 1,6 % milli ára – Hlutfallslega mest í Súðavíkurhreppi

Íbúum fjölgar í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra þar sem fækkar um 2 einstaklinga á tímabilinu frá 1. desember 2021 til 1. október 2022.

Íbúum Vestfjarða fjölgaði um 1,6 % á þessu tímabili. Mest fjölgaði í Vesturbyggð um 31 í Súðavík um 26 og í Bolungarvík um 24. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði 14 og í Tálknafjarðarhreppi um 11. Í Reykhólahreppi og Kaldrananeshreppi fjölgaði um 4 á hvorum stað í Árneshreppi um 3 og einn í Strandabyggð. Samtals er aukning á íbúafjölda á Vestfjörðum 118 manns á þessu tímabili

Hlutfallslega mest hefur fjölgunin verið á Suðurnesjum eða um 5,8% sem er fjölgun um 1.673 íbúa. Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 3,5% á tímabilinu eða um 1.136 íbúa. Samtals fjölgar íbúum á landinu öllu um 9.021 frá 1. desember 2021 sem er um 2,8%.

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Kjósahrepps fjölgað hlutfallslega mest síðastliðna tíu mánuði eða um 12,7% en íbúum þar fjölgaði um 31 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Súðavíkurhreppi eða 12,2% en þar fjölgaði íbúum um 26.

DEILA