Hlíf: hreystivöllur skorinn niður

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hafna eina tilboðinu sem barst í hreystivöll við Hlíf og leggur til að málið verði skoðað á næsta ári.

Auglýst var í byrjun þessa mánaðar svokölluð verðfyrirspurn í hreystivöllinn. Helstu verkliðir eru jarðvinna (gröftur og malarfylling), samsetning og uppsetning hreystitækja og frágangur fallvarna og lóðar. Ísafjarðarbær leggur til hreystitæki. Verkið átti að hefast strax og verkáætlun hefur verið lögð fram og verksamningur undirritaður. Aðeins Búaðstoð ehf svaraði og bauðst til að vinna verkið fyrir 11 m.kr. Kostnaðaráætlun var 9,2 m.kr.

Í framkvæmdaáætlun bæjarins eru settar 5 m.kr. í þessa framkvæmd.

Nýlega er búið að skera niður framkvæmdaáætlunina um 200 m.kr. Meðal framkvæmda sem þá var slegnar af voru tvær framkvæmdir á Hlíf. Það voru 10 m.kr. framkvæmd við loftræstingu í kjallara og 2,5 m.kr. endurnýjun á baðherbergi, samtals 12,5 m.kr.