Háskólasetur: Fyrirlestur um sjógöngu sjóbirtings

Miðvikudaginn 26. október mun Jan Grimsrud Davidsen er rannsóknarprófessor í vistfræði ferskvatns við norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU) bjóða upp á opinn fyrirlestur um rannsóknir sínar á sjógöngu sjóbirtings.
Erindið er öllum opið og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á ensku.

Víða í Evrópu er sjóbirtingur bæði efnahagslega og vistkerfislega mikilvægur. Á síðustu 10-20 árum hefur veiddur afli á sjóbirtingi dregist saman um 23-70% í norskum ám. Aukinni nýting strandsvæða t.d. fyrir fiskeldi í sjókvíum getur haft neikvæð áhrif á göngu urriða (Salmo trutta, þ.e. sjóbirting).

Rannsóknir á líffræði, vistfræði, búsvæðum og sjógöngu silunga eru afar takmarkaðar, en þekkingin er grundvöllur þess að hægt sé að skipuleggja og þróa strandsvæði með sjálfbærum hætti.

Rannsóknaráætlunin „The secret life of sea trout“ notar fjölbreyttar rannsóknaaðferðir til að skrásetja ferðir og búsvæði sjóbirtings í nokkrum norskum fjörðum. Niðurstöðurnar sýna að sjóbirtingur sýnir fjölbreytta gönguhegðun eftir næringarástandi, kyni og gerð heimavatnsfalls og þess vegna geta hugsanleg neikvæð áhrif af þróun strandsvæða verið afar ólík eftir svæðum. Strandsækin starfsemi og fiskeldi geta haft áhrif og á nokkrum stöðum í Noregi hafa fiskar verið merktir með hljóðmerkjum til að fylgjast með göngum og skrásetja áhrif af mannavöldum. Til viðmiðunar hafa á sama tíma verið gerðar rannsóknir á ósnortnum búsvæðum urriða við Kerguelen-eyju. Þessar niðurstöður geta hagsmunaaðilar nýtt þegar taka þarf ákvarðanir um staðsetningu nýrra fiskeldisstöðva og aðra innviðauppbyggingu á strandsvæðum. Þátttaka almennings í rannsóknarverkefninu er afar mikilvæg, rannsóknir af þessu tagi veita ungmennum tækifæri til menntunar og skapa tækifæri til að miðla staðbundinni og vísindalegri þekkingu öllum til heilla.

Jan Grimsrud Davidsen er rannsóknarprófessor í vistfræði ferskvatns við norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU). Hann lauk doktorsprófi í ferskvatnsvistfræði frá Háskólanum í Tromsø (UiT). Rannsóknir hans hafa verið á sviði sjávargangna laxfiska, fæðuvistfræði og einstaklingsbundinnar hegðunar og tengjast bæði hagnýtum og grunnrannsóknum. 

DEILA