Djúpið: Háafell byrjað að slátra regnbogasilungi

Fiskur sóttur í eldiskvíarnar. myndir: Háafell.

Háafell á Ísafirði er byrjað að slátra regnbogasilungi úr sjókvíaeldi við Bæjarhlíð í Ísafjarðardjúpi. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri segir að þar séu tvær kvíar með um 500 tonn af eldisfiski sem settur var úr í fyrravor og er kominn í sláturstærð. Hann segir að slátrað verði fram undir jól úr kvíunum. En þá fer eldissvæðið Bæjahlíð í hvíld í rúmt ár. Þar verður næst settur út fiskur vorið 2024. „Fiskurinn er vel vænn um 3 kg meðalþyngd. Stofninn kemur frá Danmörku og verður fiskurinn um 2,5 – 3 kg að þyngd og er því mun minni en laxinn sem er 5 – 6 kg“. Gauti segir að slátrað sé í húsnæði Frosta í Súðavík og fiskurinn fluttur frystur eða ferskur með skipi á markað í Evrópu.

Háafell hefur 6.800 tonna leyfi í Ísafjarðardjúpi til sjókvíaeldis og er það valkvætt fyrir lax eða regnbogasilung. Vegna skilyrða Hafrannsóknarstofnunar má ekki vera með frjóan lax í eldi fyrir innan Æðey og þess vegna er regnbogasilungur í eldinu við Bæjarhlíð. Hins vegar er Háafell með lax í eldiskvíum í Vigurál og fyrirhugað er að setja næsta vor eldislax í nokkrar kvíar í Kofradýpi undan Álftafirði.

Regnbogasilungurinn.

DEILA