Bolungavík: útiloka ekki fiskeldi í Jökulfjörðum

Mikil uppbygging er í Bolungavík tengd laxeldi.

Bolungavíkurkaupstaður segir í umsögn sinni um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði að mikilvægt sé að útiloka ekki fiskeldi í Jökulfjörðum og vill það láta vinna burðarþols- og áhættumat fyrir svæðið. Ekki er tekið undir flokkun svæðisráðs á reitum UN19 og UN20, en það bannar fiskeldi.

Sveitarfélagið telur að Jökulfirðir séu mikilvægt svæði fyrir ferðaþjónustu og útivist en er þeirrar skoðunar að ekki hafi verið skoðað nægilega ýtarlega hvernig fiskeldi geti samrýmst þessu mikilvæga hlutverki Jökulfjarða.

„Ekkert í skipulaginu bendir til þess að ekki sé hægt að vinna að markmiðum þessara þátta samhliða þannig að hagsmunir samfélagsins og umhverfisins fái að njóta vafans á sama tíma.“

Lögð er áhersla á að strandsvæðsskipulagið nái þeim markmiðum sem því er sett að nýting og vernd strandsvæðisins styðji aðliggjandi byggðarlög með tækifærum til fjölbreyttrar starfsemi og nýsköpunar. Fiskeldið sé mikilvægt í uppbyggingu samfélagsins á Vestfjörðum og áríðandi að útiloka ekki fiskeldissvæði án þess að skoða alla möguleika til að vinna að framgangi byggðar, í sátt við umhverfi og náttúru.

DEILA