Baskasetur á Djúpavík fær Evrópustyrk

Á myndinni eru: Ólafur J. Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins, Þórarinn Blöndal, hönnuður Baskasýningarinnar og Héðinn Ásbjörnsson, formaður Baskaseturs Íslands á Djúpavík.

Baskavinafélagið á Íslandi hefur fengið vilyrði fyrir um 28 milljóna króna, eða 200.000 evra styrk frá Evrópusjóðnum Creative Europe til að byggja upp Baskasetur á Djúpavík þar sem áformað er að setja upp sýningu um tengsl Baska og Íslendinga. Sýningunni verður komið fyrir í gömlu síldartönkunum á Djúpavík. Í efsta tankinum verður sögusýningin. Miðtankurinn mun hýsa listsýningar sem tengjast umhverfisáherslum verkefnisins. Í þriðja og neðsta tankinum verður komið fyrir verkstæði í bátasmíði þar sem skipasmiðir frá Albaola í San Sebastian munu leiðbeina við gerð báts í líkingu við báta Baskanna sem siglt var á í land úr skipunum sem liggja á botni Reykjarfjarðar. Salur er á annarri hæð verksmiðjuhússins og verður hann innréttaður fyrir ráðstefnur og veislur auk þess sem sýningar verða þar. Jafnframt verður komið upp fræðimannaaðstöðu og eldhúsi í verksmiðjuhúsinu.

Á sögusýningunni í efsta tankinum, sem Þórarinn Blöndal hannar, verða m.a. líkön af skipum og leikmyndir af sögusviði Baskavíganna 1615. Tekið verður fyrir strand basknesku skipanna á innlifunarsýningu þar sem notuð verða myndskeið og leikmyndir. Listsýningar Factory verða hluti af verkefninu sem hefur megináherslu á sjálfbærni og hvetur til árvekni gagnvart súrnun sjávar. Háskólasetur Vestfjarða tekur þátt í verkefninu með fyrirlestrum og námskeiðahaldi. Fornbátasafnið Albaola í Pasaia sem er í spænska hluta Baskalands og tónlistarhátíðin Haizebegui í Bayonne sem er í franska hluta Baskalands, taka þátt í verkefninu með viðburðum bæði á Djúpavík, á Spáni og í Frakklandi. Fleiri samstarfsaðilar koma að verkefninu eins og Hótel Djúpavík, Árneshreppur, Strandagaldur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum, Factory listsýningin og Memory of Water listaverkefnið.

DEILA