Auðlindin okkar: vel sóttur fundur á Ísafirði

Frá fundinum í gær. Rebekka Hilmarsdóttir í ræðustól. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Fyrsti fundur af fjórum á vegum Auðlindarinnar okkar fór fram á Ísafirði í gær. Alls mættu 50 – 60 manns auk þess sem streymt var frá fundinum. Fundröðin er liður í endurskoðun stjórnvalda á stefnu í sjávarútveginum og voru fulltruar fjögurra starfshópa á fundinum.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var fundarstjóri og sagði hann umræður hafa verið góðar og innlegg jákvæð. „Þetta eru metnaðarfull markmið sem þessari vinnu eru sett og virðingarvert að svona mikill undirbúningur og samráð séu á þessu stigi. Það er margt undir og hver flokkur flókinn í sjálfum sér, eins og menntamál, byggðamál, hafrannsóknir og samgöngur. Við eigum mikið undir öflugum og sjálfbærum sjávarútvegi. Sjávarútvegsdagurinn var haldinn í gær í Reykjavík, en hér á Vestfjörðum eru allir dagar sjávarútvegsdagar.“

Allmargir tóku til máls og var meðal annars lögð áhersla á að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi með því að nýta nýja nytjastofna. Var þar nefnt að horfa til þörunga, miðsjávarstofna svo sem rauðátu og fleiri tegundir í eldi.

Valdimar Ingi Gunnarsson benti á að vaxandi hvalastofnar hefðu í för með sér að minna yrði veitt og nytjað úr hafinu. Sigríður Gísladóttir, Ísafirði vildi auka sveigjanleika í sjávarútvegi með aukinni fjölbreytni greinarinnar og fleiri eldistegundum. Skjöldur Pálmason, Patreksfirði svaraði því til að greinin hefði hvorki tæki né tól til þess stækka kökuna og benti m.a. á tilfinnanlegan fjárskort til hafrannsókna. Sigurður Ólafsson, Ísafirði sagði smábáta vera komna lengst í orkuskiptum og þeir veiddu t.d. með rafdrifnum veiðarfærum. Davíð Kjartansson, Ísafirði lagði áherslu á að innan fiskeldisins gætu þrifist fjölbreytileiki í stærð fyrirtækja. Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir sagði að skortur á samkeppnishæfni væri helsti Akkelisarhæll Vestfjarða og vísaði meðal annars til samgöngumála. Sagði hún að síðustu 5 ár hefðu verið 330 lokanir á vegum Vestfjarða.

DEILA