Yfir 40 þúsund hraðabrot skráð með hraðamyndavélum árið 2021

 Yfir fjörutíu þúsund hraðabrot voru skráð með hraðamyndavélum árið 2021 og þar af um 19 þúsund á höfuðborgarsvæðinu.

Stafrænar hraðamyndavélar sem eru í notkun á landinu eru 22 talsins og eru notaðar á 28 mælistöðum fyrir sjálfvirkt hraðaeftirlit.

Mælistaðirnir eru fyrst og fremst á Hringvegi, í jarðgöngum, á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Vegagerðin sér um almennan rekstur myndavélanna og viðhald eldri mælistaða. Hún sér einnig um að láta kvarða myndavélarnar og sinnir almennu viðhaldi þeirra. Fyrstu stafrænu hraðamyndavélarnar voru teknar í notkun árið 2007 og hafa þær elstu því verið virkar í 15 ár.

Hraðakstursbrot eru skráð í málaskrá lögreglu en árið 2021 voru skráð 40.420 brot sem eru töluvert fleiri en árið á undan þegar umferð var óvenju lítil vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Árið 2021 skráðu stafrænar hraðamyndavélar að meðaltali um 111 brot á dag.

Í Bolungarvíkurgöngum voru skráð 527 hraðabrot árið 2021 en 316 árið áður.