Vinnustofa um framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi

Vinnustofa um framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi fór fram á Hilton síðastliðinn fimmtudag.

Vinnustofan var hluti af umfangsmikilli vinnu sem nú á sér stað á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og felur í sér heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Þetta er eitt af stærri verkefnum ríkisstjórnarinnar og hverfist um að tryggja skuli eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma.

Fram kom að verkefnið væri að ná að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu og markmiðið væri meðal annars að fjölga því fólki sem tæki virkan þátt í samfélaginu. Þar með að bæta lífsgæði fólks og draga úr þörf þess fyrir flutningi á hjúkrunarheimili eða sjúkrahús. Farið var yfir stöðuna eins og hún var fyrir hálfri öld þegar stór hluti fólks 80 ára og eldri bjó á elliheimilum og þeirri spurningu velt upp hver við myndum vilja að staðan yrði eftir jafnlangan tíma eða  árið 2072.

Opinn fundur mun fara fram í nóvember þar sem öll þau sem vilja geta tekið þátt.

Samhliða vinnustofunni í gær fór fram vinnustofa með aðstandendum fólks með heilabilun þar sem þátttakendur útbjuggu svokallað samkenndarkort og voru niðurstöður þeirrar vinnu kynntar undir lok dags. Í máli Magnús Karls Magnússonar, læknis og aðstandanda, kom meðal annars fram sá samhljómur meðal þátttakenda að eftir greiningu hafi tekið við tómarúm sem sannarlega mætti vinna betur með.

DEILA