Uppskrift vikunnar – Nautapottréttur með rauðvíni

Þessi pottréttur tekur þónokkurn tíma og er því fullkominn sunnudagsmatur þegar maður hefur nægan tíma til að dunda sér í rólegheitunum í eldhúsinu. Það eru oft mínar bestu stundir að dunda við matargerð við góða tónlist. Vindur oft vel ofan af mér.

Vona að þið prufið þessa uppskrift fyrir næsta sunnudagsmatarboð.

Þetta er uppskrift fyrir um það bil 6.

Hráefni:

1 flaska rauðvín, best ef það er bragðmikið

4–5 gulrætur

3 laukar, mér finnst salatlaukurinn bestur

2 hvítlauksgeirar

2–3 lárviðarlauf

Nokkrar timjangreinar

1,2 kg nautakjöt

4 msk hveiti

pipar

salt

100 g beikon

400 g sveppir

2 msk olía

1 msk koníak (má sleppa)

200 ml vatn

1 tsk nautakraftur

Aðferð:

  1. Helltu víninu í pott. Skerðu eina gulrót og einn lauk smátt og hvítlaukinn mjög smátt og settu út í, ásamt lárviðarlaufi og timjani. Hitaðu að suðu og láttu sjóða niður u.þ.b. um helming. Taktu svo pottinn af hitanum og láttu standa.
  2. Hitaðu ofninn í 150°C. Skerðu kjötið í bita, 4–5 cm á kant. Veltu þeim upp úr hveiti krydduðu með pipar og salti. Skerðu beikonið í bita og sveppina í sneiðar eða bita. Skerðu afganginn af gulrótunum og lauknum í bita. Hitaðu 1 msk af olíu í steypujárnspotti og brúnaðu helminginn af kjötinu við góðan hita. Taktu það upp með gataspaða og brúnaðu hinn helminginn í afganginum af olíunni. Taktu það líka upp og settu til hliðar.
  3. Brúnaðu beikonbitana í nokkrar mínútur, bættu svo sveppunum í pottinn og síðan gulrótum og lauk og láttu krauma í nokkrar mínútur. Helltu koníakinu yfir, sé það notað, og láttu það gufa alveg upp. Settu kjötið aftur í pottinn, síaðu rauðvínslöginn yfir, bættu við vatni og nautakrafti og hitaðu að suðu.
  4. Settu lok á pottinn, settu hann í ofninn og láttu réttinn malla í 2½–3 klst., eða þar til kjötið er mjög meyrt og sósan þykk og bragðmikil. Líttu einu sinni eða tvisvar í pottinn þegar líður á steikingartímann og bættu við svolitlu vatni ef þarf.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA