UMFÍ með rekstur skólabúða á Reykjum

Aðeins örfáar vikur eru síðan skrifað var undir samning um að UMFÍ taki við rekstri Skólabúðanna á Reykjum.

Starfsmenn UMFÍ og sveitarfélagsins Húnaþings vestra hafa staðið í ströngu síðustu vikur við umtalsverðar umbætur á húsnæðinu á Reykjum.

Búið er að mála allt, skipta út nær öllu innbúi og húsgögnum og ráða í allar stöður.

Húsnæðið rúmar 120 nemendur og munu koma af öllu landinu. Fyrstu nemendurnir, 6 kennarar og fleiri starfsmenn skólanna komu á mánudag frá Ísafirði, Álfhólsskóla í Kópavogi og Bolungarvík.

„Ég svíf hérna um í bongóblíðu, krökkunum finnst allt rosa gaman og kennararnir ánægðir með aðstöðuna,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir, kennari í 7. bekk Grunnskólans á Ísafirði. Hún var í hópi fyrstu gestanna sem komu í Skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði á mánudag.

DEILA