Suðureyri: nýja vatnslögnin tengd

Vatnstankurinn á Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýja vatnslögnin úr Staðardal inn í vatnstankinn á Suðureyri var tengd á þriðjudagskvöldið og Kristján Andri Guðjónsson, bæjarverkstjóri segir að eftir sólarhringsrennsli sé ekki annað að sjá en að lögnin skili nægu vatnsmagni og engin merki sjáanleg um leka. Um hana streymir um 60 rúmmetrar á klukkustund. Vatnsskorturinn á Suðureyri er því úr sögunni. Nýja lögnin er 1700 metra löng og 180 mm sver. Kristján Andri segir að lögð hafi verið önnur 110 mm lögn til vara sem er þá tilbúin til tengingar ef og þegar með þarf.

Enn hefur ekki fundist lekinn sem talinn er vera á lögn á svæði sem afmarkast af Eyrargötu, Skólagötu, Stefnisgötu og Rómarstíg á Suðureyrinni. Áætlað er að fara í þá vinnu á næstu dögum.

Næsta sumar verður lög ný lögn frá vegamótunum í Staðardal, þar sem nýja lögnin endar og að vatnslindunum í Sunndal.

DEILA