Noregur: 40% auðlindaskattur á eldislax

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Trygve Slagsvold Vedum fjármálaráðherra. Mynd: Dagens Nyheter/Per Thrana.

Norska ríkisstjórnin hefur kynnt áform um að setja á um næstu áramót auðlindaskatt á eldisfisk. Í tillögunum er gert ráð fyrir að skatturinn verði lagður á svonefnd grunnrente og verði 40% af þeirri fjárhæð. Í grunninn er skatturinn lagður á tekjur að frádregnum útgjöldum við að afla teknanna, þar með talinn fjárfestingarkostnað. Lagafrumvarp verður lagt fyrir norska þingið og er stefnt að því að lögfesta það fyrir áramót.

Í áætlunum ríkisstjórnarinnar kemur fram að auðlindarentan var í fyrra talin vera 11,8 milljarðar norskra króna. Skatttekjurnar á næsta ári verða á bilinu 3,65 – 3,8 milljarðar norskra króna. þetta jafngildir um 50 milljörðum íslenskra króna. Þetta yrði alveg nýr skattstofn fyrir norska ríkið en hann er þó þekktur þar sem sambærilegur skattur er innheimtur af vatnsaflsvirkjunum og olíulindum. Einnig er lagt til að nýi skatturinn verðir lagður á vindorku.

Eðlilega hefur orðið nokkurt uppnám á markaðsvirði hlutabréfa í fiskeldisfyrirtækjum við tíðindin og hefur verð hlutabréfa fallið um 20 – 30% síðan tíðindin spurðust.

56 kr á Íslandi – hærra en í Noregi

Þegar haft er í huga að árlega er framleiðslan á eldislaxi í Noregi um 1,3 milljónir tonna verður skatturinn á hvert framleitt kg um 2,9 NOK eða um 39 íslenskar krónur.

Hér á landi hefur þegar verið sett á svonefnd fiskeldisgjald. Það er brúttóskattur, er 3,5% af meðalmarkaðsverði. Miðað við þetta ár og verðin á erlendum mörkuðum er áætlað að meðalmarkaðsverðið verði 8 evrur/kg. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt áform um að hækka gjaldið um áramótin upp í 5%. Samkvæmt því verður fullt gjald á næsta ári 56 kr/kg. Gjaldið kemur til framkvæmda í áföngum fram til 2026 og á næsta ári verður það 4/7 af fullu gjaldi eða 32 kr/kg.

Á næsta ári verður því innheimt gjald á Íslandi sem slagar hátt upp i fyrirhugað auðlindagjald Norðmanna og frá 2026 verður gjaldið hér á landi 44% hærra en í Noregi, þegar álagningunni í Noregi er deilt niður á hvert framleitt kg.

Það fer ekki á milli mála að bæði í Noregi og á Íslandi er laxeldi í sjó metið sem mjög arðvænleg starfsemi sem gefur háar fjárhæðir í greiðslur til hins opinbera.

Ólíkar reglur

Álagning skattsins í Noregi er verulega ólík reglunum um fiskeldisgjaldið á Íslandi.

Í Noregi eru fyrstu 4000 tonnin undanþegin skattinum. Fyrir vikið sleppa um 70-80% fyrirtækjanna í eldinu við skattinn en skatturinn verður á móti meiri á stóru eldisfyrirtækin, þar sem stærðarhagkvæmnin skilar meiri framlegð. Í Noregi er kostnaður við fjárfestingu og beinn framleiðslukostnðaur dreginn frá áður en skatturinn er reiknaður. Hér á landi er fiskeldisgjaldið brúttógjald sem tekur ekki mið af kostnaði við framleiðsluna né fjárfestingu. Það er augljóslega þyngra að byggja upp fiskeldið í frjóum laxi samkvæmt íslensku reglunum en í Noregi.

Í Íslandi er hins vegar veittur helmingsafsláttur af gjaldinu fyrir ófrjóan lax og regnbogasilung. Þetta er hvati til þess að fara í eldi sem er síður hagkvæmt. Sérstakt er að beita skattareglum til þess að hvetja til notkunar á takmörkuðu burðarþoli fjarðanna í framleiðslu sem skilar minna af sér.

Þá eru leyfin ólík. Í Noregi er um ótímabundin eignarleyfi að ræða en á Íslandi eru leyfin til 16 ára og fyrirtæki missir eldissvæðið þegar leyfið rennur út og engin vissa er um framhaldið. Líklega verður um einhvers konar samkeppnisfyrirkomulag milli eldisfyrirtækja að ræða við endurúthlutun leyfissvæða. Fyrir vikið er verðmæti leyfanna í Noregi mun hærra en á Íslandi.

Jafnvel þótt áform norsku ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga um auðlindaskattinn þá verður gjaldtakan mun hærri á Íslandi að því gefnu að hækkun fiskeldisgjaldsins verði samþykkt á Alþingi í haust.

Annað er líka sláandi og það er ráðstöfun teknanna. Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að sveitarfélögin fái helminginn af skattinum. Á Íslandi á aðeins þriðjungurinn að renna til þeirra í gegnum Fiskeldissjóð.

-k

DEILA