Ísafjörður – Súðavík: 6,7 km jarðgöng

Styttri göngin má sjá á þessari mynd sem sýnir lengri göngin.

Í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri fyrir Vegagerðina eru teknir til skoðunar jarðgangakostir á landsbyggðinni, þar á meðal eru tvær hugmyndir að göngum milli Ísafjarðar og Súðavíkur, eða öllu heldur milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fyrri kosturinn eru nokkuð löng göng frá Kirkjubæ í Skutulsfirði í Sauradal ofan Súðavíkur. Þau göng yrðu 6,7 km löng og munninn vestan megin í 16 metra hæð yfir sjávarmáli og 62 metra hæð austan megin. Með vegskálum verða göngin 6,9 km löng og munu kosta 17,5 milljarða króna með virðisaukaskatti. Vegalengir myndu styttast um 6,1 km með göngunum og umferðartíminn styttast um nærri 3 mínútur fyrir umferð milli þéttbýlisstaðanna. Hins vegar yrðu áhrifin meiri fyrir umferð sem færi fram hjá Súðavík. Vegstytting fyrir þá umferð yrði 9,4 km og stytting ferðatíma 6,5 mín.

Gert er ráð fyrir að á fyrsta ári 2025 verði umferðaróhöpp án meiðsla 0,12 færri, en slys með meiðslum eða dauða verði 0,05 færri með göngum en án ganga.

Umferð var 2019 460 ÁDU, það er að jafnaði fóru 460 bílar á dag yfir árið þessa leið. Fyrirsjáanlegt er að meginumferðarstraumurinn muni fara vesturleiðina suður þegar framkvæmdum á þeirri leið verður lokið eftir 2-3 ár. Gert er ráð fyrir að einungis 5% umferðarinnar frá Ísafirði og út fyrir Vestfirði muni fara áfram um Súðavík í stað 90% áður. Í útreikningunum er því gert ráð fyrir að umferðin verði 395 ÁDU árið 2025 og vaxi í 541 árið 2044.

Miðað er við veggjaldið 387 kr. fyrir fólksbíla og þrefalt hærra gjald á þunga bíla. Það ætti að gefa 28 Mkr í tekjur á fyrsta ári. Það stendur undir 2,2 Gkr láni ef raunvextir eru 1,25%. Lánið getur því einungis staðið undir 12% af stofnkostnaði og vaxtakostnaði á framkvæmdatíma. Reiknuð arðsemi ganganna er neikvæð um 1,28%.

Helsti vandinn á leiðinni eru snjóflóð, sem eru algeng á 2,8 km kafla á Súðavíkurhlíð. Auk þess koma snjóflóð í Skutulsfirði á Kirkjubólshlíð, en þau eru fátíðari. Þeim hefur þó faið fækkandi á öldinni segir í skýrslunni.

Á árunum 1991-2000, sem voru snjóþung, komu að meðaltali 56 flóð á ári út á veg og lokuðu a.m.k. annarri akrein en 2007-2018 komu 18 flóð að meðaltali á ári út á veg. Veturinn 2018- 2019 lokaðist hlíðin til dæmis aðeins einu sinni vegna snjóflóðs. Grjóthrun á Súðavíkurhlíð er ekki það mikið að Vegagerðin telji það vandamál. Um lokun vegna snjóflóða segir : „Vegurinn um Súðavíkurhlíð var lokaður í að meðaltali um 102 klst. á ári tímabilið 2010-2020 sem jafngildir um fjórum heilum sólarhringum á ári að jafnaði. Dagar þar sem lokað var í 10 tíma eða lengur voru um fjórir á ári að meðaltali.“ Þó var mjög misjafnt hversu lengi var lokað eftir árum og verst var árið 2020 en þá var lokað í um 330 klst. eða sem nemur 14 heilum sólarhringum.

Skýrsluhöfundar telja byggðaáhrifin af gerð ganganna verði líklega með hliðsjón af opinberum markmiðum á sviði byggðaþróunar talsvert jákvæð þar sem mikil samskipti eru milli byggðarlaganna bæði hvað varðar atvinnu og þjónustu.

DEILA