Ísafjarðarbær biður um endurupptöku Ísofit málsins

Frá undirskrift samningsins milli Isofit og Ísafjarðarbæjar árið 2020 um styrk til reksturs líkamsræktarstöðvar.

Innanríkisráðuneytið staðfestir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að Ísafjarðarbær hafi óskað eftir endurupptöku úrskurðar ráðuneytisins í kærumáli Þrúðheima gegn Ísafjarðarbæ frá því í júní í sumar. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að styrkveiting sveitarfélagsins til reksturs líkamsræktarstöðvar Ísofit væri ólögmæt.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 4. júlí og þar bókað að bæjarstjóra væri falið að afla frekari upplýsinga frá innviðaráðuneytinu „um ástæður þess að Ísafjarðarbæ barst ekki kæra og umsagnarbeiðni í september 2021 og janúar 2022, auk þess sem bæjarstjóra er falið að vinna málið áfram.“ Að öðru leyti hefur málið ekki verið tekið til umræðu hjá bæjarráði eða bæjarstjórn.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri hefur hins vegar sagt á bb.is að samningurinn hafi verið „gerður í góðri trú þriðja aðila og sé sveitarfélaginu óheimilt að brjóta gegn eða rifta þeim samningi, einungis á grundvelli úrskurðar ráðuneytisins í máli Þrúðheima gegn Ísafjarðarbæ.“ Þá hefur komið fram hjá bæjarstjóra að Ísafjarðarbær hafi upplýst ráðuneytið um að kæra, málsgögn og umsagnarbeiðni um málið hafi ekki borist sveitarfélaginu. Sveitarfélaginu hafi því ekki gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ráðuneytið áður en úrskurður var kveðinn upp.

Innviðaráðherra var inntur eftir viðbrögðum við því að Ísafjarðarbær teldi samninginn í gildi og að óheimilt væri að brjóta gegn honum þrátt fyrir úrskurð ráðuneytisins. Í svari ráðuneytisins segir að beðið sé eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir beiðninni um endurupptöku.

„Meðan málið er í þessum farvegi telur ráðuneytið ekki rétt fjalla efnislega um málið.“

DEILA