Fjórðungsþing: þungar áhyggjur af halla á þjónustu við fatlaða

Í ályktun Fjórðungsþings Vestfjarða sem gerð var 10. september er lýst þungum áhyggjum af sívaxandi halla í rekstri málaflokks fatlaðs fólks á Vestfjörðum.

Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks er samstarfsverkefni sveitarfélagana á Vestfjörðum og heldur utan um þá þjónustu sem veita á samkvæmt lögum 38/2018 lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Fjórðungsþingið segir að endurskoðaðar rekstarforsendur BsVest fyrir árið 2022 geri ráð fyrir halla á málaflokknum upp á kr. 195.000.000 og ályktað er að mikilvægt er að bregðast nú þegar við þeim halla með auknu fjármagni frá ríkisvaldinu.

Á síðasta ári lagði Jöfnunarsjóður ríkisins fyrir hönd ríkisins fram 499 m.kr. og sveitarfélögin á Vestfjörðum greiddu 81 m.kr. Í nýlegri áætlun Jöfnunarsjóðsins fyrir yfirstandandi ár eru framlög ríkisins lækkuð í 465 m.kr.

Í ársskýrslu Byggðasamlags Vestfjarða fyrir árið 2019 kemur fram að 72 einstaklingar eldri en 18 ára búsettir á Vestfjörðum falli undir lögin en ekki séu allir þeirra í virkri þjónustu.

Ársskýrslur fyrir árin 2020 og 2021 hafa ekki verið birtar.

DEILA