Fjórðungsþing: Ágreiningur um ályktun um þjóðgarð

Kristján Jón Guðmundsson, bæjarfulltrúi í Bolungavík.

Fram kom ágreiningur á þingi Fjórðungssambands Vestfjarða um ályktun Ísafjarðarbæjar um þjóðgarð á Vestfjörðum.  Það var Nanný Arna Guðmundsdóttir sem flutti tillöguna fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Tillagan var samþykkt óbreytt en bæði var um mótatkvæði og hjásetu að ræða.

Í samþykktinni er skorað á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að taka upp vinnu við stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum í samstarfi við sveitarfélög á Vestfjörðum. Markmið með þjóðgarði er að vernda og varðveita einstakt svæði sem inniheldur m.a friðlandið í Vatnsfirði og tvö náttúruvætti, Dynjanda og Surtarbrandsgil, til framtíðar segir í tillögunni.

Svo segir að Fjórðungsþing leggur áherslu á að ekki verði settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.

Kristján Jón Guðmundsson, bæjarfulltrúi í Bolungavík greiddi atkvæði gegn tillögunni. Hann segir að áður en ályktað er um stofnun þjóðgarðs þurfi að koma rafmagnsmálum á Vestfjörðum á hreint. Kristján Jón minnir á að Fjórðungsþing hafi áður sagt að orkumálin séu í forgangi og það vanti orku. „Það þarf að virkja á Vestfjörðum. Vestfirðingar áttu í sumar fund með Orkumálaráðherra og sögðu honum að það þyrfti að virkja á Vestfjörðum. þessi samþykkt gefur ekki rétta mynd af áherslunum. Svo má bæta því við að ráðherrann sagði nýlega að það þyrfti að tvöfalda raforkuframleiðslu á landinu á næstu árum. Ætlum við að vera með eða ekki?“ Kristján Jón sagðist styðja 30 MW virkjun í Vatnsfirði sem Orkubú Vestfjarða hefur  kynnt hugmyndir að og segir að vinna þurfi þessa áform, gera umhverfismat og annað sem því tilheyrir að finna ásættanlega úrfærslu. Hann segist ekki sjá að nein vandkvæði verði að því að stofna þjóðgarð að því gerðu.

DEILA