Fiskeldisgjald: sveitarfélögin vilja semja um skiptingu fjárins

Mynd úr safni

Fjórðungsþing Vestfjarða ákvað í byrjun mánaðarins að stofna starfshóp sem falið verður „að ná sátt um skiptingu fjármuna sem nú renna til Fiskeldissjóðs milli fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum.“ Mikilvægt er að fiskeldissveitarfélög á Vestfjörðum leggi fram sameiginlega sýn þar um segir í ákvörðuninni.

Eldisfyrirtæki greiða sérstakt gjald í ríkissjóð, svonefnt Fiskeldisgjald. Það fer mjög hækkandi og stefnir ríkisstjórnin að því að hækkað það um 43% á næsta ári. Tekjur af þvi munu nema milljörðum króna á hverju ári. Þriðjungur gjaldsins rennur í Fiskeldissjóð sem úthlutar því til sveitarfélaga þar sem eldið er stundað til verkefna sem að styðja uppbyggingu innviða samfélags og atvinnulífs.

Fjórungssamband Vestfirðinga hefur ákveðið að undir hugtakið fiskeldissveitarfélög á Vestfjörðum falli sveitarfélög sem liggja að þeim svæðum sem hafa verði afmörkuð fyrir eldi á laxi í sjó og innheimt er gjald af slátruðum laxi.
Þessi sveitarfélög eru Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð.

Eru ofangreind sveitarfélög beðin um að tilnefna fulltrúa í starfshópinn. Af hálfu Ísafjarðarbæjar verður Gylfi Ólafsson fulltrúi sveitarfélagsins. Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri verður fulltrúi Vesturbyggðar. Fulltrúi Bolungavíkurkaupstaðar verður Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri. Önnur sveitarfélög hafa ekki enn valið fulltrúa sinn í starfshópinn eftir því sem næst verður komist.

DEILA