Byggðasafn Vestfjarða: byggt verði nýtt hús fyrir 300 m.kr.

Byggðasafn Vestfjarða.

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að gert verði ráð fyrir fjármagni á árunum 2025-2032 til þess að byggja 400 fermetra húsnæði fyrir Byggðasafn Vestfjarða sem áætlað er að kosti 300 m.kr.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti árið 2021 að hefja uppbyggingu umræddar byggingar. Áætlað var að á árinu 2023 yrði veittar um 10 m.kr. til frekari hugmyndavinnu og hönnunar, og á árinu 2024-2028 yrði um 450 m.kr. veittar í verkefnið.

Nefndin leggur nú til að árið 2024 verði hugað að uppbyggingu húsnæðis á safnasvæði Byggðasafnsins, þ.e. að ljúka við hús það er nú hýsir Upplýsingamiðstöð ferðamála, geymslur, skrifstofur og vinnuaðstöðu starfsmanna Byggðasafns Vestfjarða. Nú þegar er grunnur hússins tilbúinn, um 400 fermetrar, og fyrirliggjandi hönnunargögn gera ráð fyrir að nýtt hús verði úr timbri og gleri. Áætlað verð vegna byggingar er um kr. 300.000.000. Húsið myndi nýtast fyrir núverandi starfsemi, rýmka um Upplýsingamiðstöð, sem nauðsynlegt er vegna fjölgunar ferðamanna á svæðinu (ekki síst vegna aukningar skemmtiferðaskipa), svo og fyrir kaffihús eða aðra veitingastarfsemi. Með húsi af þessu tagi yrði þétting í þjónustu, starfsemi og uppbyggingu safna- og ferðamannasvæðisins í Neðsta kaupstað, og yrði bæjarfélaginu til sóma segir í greinargerð menningarmálanefndar.

Tillaga menningarmálanefndar verður tekin fyrir í bæjarstjórninni á fundi hennar seinna í dag.

DEILA