Bókasafn Vesturbyggðar stofnað

Bókasafnið á Bíldudal er í Skrímslasetrinu á Bíldudal.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að sameina Héraðsbókasafn V-Barðastrandarsýslu á Patreksfirði og Bókasafnið Bíldudal undir nafninu Bókasafn Vesturbyggðar.

Bókasafnið verður áfram með útibú á Bíldudal og Patreksfirði en með sameiningu verður rekstur og utanumhald einfaldari segir í samþykkt bæjarstjórnar. Nú þegar hefur útlánaþáttur bókasafnanna verið sameinaður sem gerir notendum kleift að fá safngögn að láni á hvoru safninu sem er, burtséð frá búsetu viðkomandi, og skila á hvoru safninu sem er.

Í erindi forstöðumanns bókasafnanna, sem óskaði eftir breytingunni segir:

„Það væri því mikið vinnuhagræði fólgið í því að sameina söfnin formlega hjá Landskerfi bókasafna. Einnig er
skynsamlegt að sleppa titlinum Héraðsbókasafn V-Barðastrandarsýslu, sem er úreltur, óþjáll og illa leitarbær.
Þar fyrir utan tilheyrum við sama sveitarfélaginu og löngu tímabært að láta af óþarfri skiptingu í tvö bókasöfn.“

DEILA