Vilja sem flest sjónarmið varðandi vindorkuver

Starfshópur um vindorku sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í sumar kallar nú eftir sjónarmiðum hagaðila, sveitarfélaga, félagasamtaka og almennings á málefnum vindorku.

Tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku.

Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum og að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.

„Við eigum að skila af okkur fyrir febrúar 2023 og verkefnið er ærið. Starfshópurinn er einhuga í að vanda sig vel og leitast við að tryggja að allir sem það vilja fái tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við okkur. Við eigum mikið verk fyrir höndum og í þessu máli togast á mikilvægir hagsmunir sem krefjast vandaðrar skoðunar og umfjöllunar,“ segir Hilmar Gunnlaugsson formaður hópsins.

Auk Hilmars skipa starfshópinn þau, Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður.