Við bjóðum þér til Sturluhátíðar 13. ágúst

„Hugmyndin er að þessi hátíð verði upphafið að þróunarverkefni sem beinist að því að sett verði upp Sturlusetur sem dragi að sér fólk í framtíðinni”.

Þannig komst Svavar Gestsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra að orði þegar hann lýsti hugmyndum um  Sturluhátíð í Dalabyggð til að minnast þess að 800 ár voru þá liðin frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar, skálds og sagnaritara á Staðarhóli í Dölum.

Svavar var sannarlega frumkvöðullinn og lét ekki sitja við orðin tóm. Hann hóaði saman hópi fólks og hafði síðan forgöngu um stofnun félags, Sturlufélags, til þess að vinna að verkefninu. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið góðar. Heimamenn og sveitarstjórn Dalabyggðar hafa sýnt verkinu áhuga og stutt við það. Eigendur Staðarhóls hafa af miklum myndarskap látið okkur í té afmarkaðan reit úr landi Staðarhóls. Fornleifaskráning hefur verið framkvæmd og fornleifarannsóknir standa yfir. Sturlufélagið hefur notð góðs stuðnings úr Framkvæmdasjóði ferðamanna og framkvæmdir eru hafnar. Og nú væntum við þess að á næsta ári verði  komin upp söguskilti sem varpi ljós á hina merku sögu Staðarhóls, sem hefur verið hulin alltof mörgum.

Sturlufélagið hefur staðið fyrir árlegri samkomu, Sturluhátíð, þar sem fjallað hefur verið um sögustaðinn Staðarhól og frægasta ábúandann, Sturlu Þórðarson, skáld, sagnaritara og einn helsta höfðingja Sturlungaaldarinnar.

Laugardaginn 13. ágúst nk. munum við enn á ný blása til Sturluhátíðar. Þar verður margt á boðstólnum. Kl. 13 þann dag verður farin stutt söguganga um Staðarhól þar sem Fornleifafræðingarnir Guðrún Alda Gísladóttir og Birna Lárusdóttir segja frá staðnum, staðháttum og rannsóknum sem þar fara fram.

Að því búnu, kl. 14 hefst svo Sturluhátíð í Félagsheimilinu Tjarnarlundi, Saurbæ í Dölum og er dagskráin eftirfarandi:

  1. Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins, setur hátíðina og minnist frumkvöðulsins Svavars Gestssonar.
  2. Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur: Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun. Rannsóknir tengdar verkefninu Ritmenning íslenskra miðalda.
  3. Einar Kárason rithöfundur: „Í fornsögum falla öll vötn til Breiðafjarðar“
  4. Una Torfadóttir tónlistarkona og Tumi Torfason trompetleikari tónlistarmaður annast tónlistarflutning á milli dagskráratriða.

Aðgangur er ókeypis og verður boðið upp á kaffiveitingar.

Undanfarin ár hefur Sturluhátíðin verið afar fjölsótt og athyglisvert er að margt fólk hefur komið um langan veg til þess að taka þátt. Sýnir þetta og sannar að Sturlungaöldin er enn lifandi í hugum margra, enda einstæður tími í sögu lands og þjóðar.

Með þessum orðum langar mig fyrir hönd Sturlufélagsins að bjóða þér lesandi góður til Sturluhátíðar laugardaginn 13. ágúst nk, fræðast um þau verkefni sem þar er unnið að og njóta fjölþættrar dagskrár.

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Sturlufélagsins.

DEILA