Vesturferðir: selja hlut Ferðamálasamtaka Vestfjarða á lágu verði

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða hefur samþykkt að selja 24,23% hlut samtakanna í Vesturferðum ehf til Sjóferða ehf og Vestfirskra ævintýraferða ehf. Fyrirtækin munu skipta hlutnum jafnt milli sín. Verðið er 1.502.000 kr.

Hlutur Sjóferða ehf fyrir kaupin er 7,49% í Vesturferðum og hlutur Vestfirskra ævintýraferða ehf er 6,45%

Aðrir hluthafar í Vesturferðum hafa frest til 11. ágúst til þess að nýta sér forkaupsrétt að hlut Ferðamálasamtakanna í samræmi við eignarhlut sinn.

Bæði kaupendur og seljendur

Stígur Berg Sophusson er stjórnarformaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Henný Þrastardóttir er einnig í stjórn. Þau eru eigendur Sjóferða ehf. Þá er Henný einnig í stjórn Vesturferða ehf. Þau eru því bæði kaupendur og seljendur.

Útgefið hlutafé í Vesturferðum er 12,4 milljónir króna. Selt er samkvæmt þessu hlutafé að nafnverði 2,9 m.kr. fyrir 1,5 m.kr.

Samkvæmt ósamþykktum ársreikningi fyrir 2021 varð hagnaður af rekstri Vesturferða 12,7 m.kr.

Henný Þrastardóttir segir í tölvupósti til hluthafa Vesturferða að „það blekkir að horfa aðeins á þessar 12-13 milljónir í hagnað. Þessi upphæð er að mestu leyti í formi styrkja og stuðningsláns“ og að raunverulegur hagnaður eftir árið var um 700 þúsund kr.

Segir hún ennfremur að lögfræðingur sem hefur verið kaupendum innan handa til að verðmeta Vesturferðir telji að verðmat Vesturferða væri 45% af nafnverði félagsins.  Hluthafar hafa ekki fengið það verðmat.

Tekjur Vesturferða í fyrra námu 197 m.kr. þar af var tekjufallsstyrkur 7,2 m.kr. , viðspyrnustyrkur 4 m.kr og stuðningur vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti 527 þúsund kr. Samtals 11,9 m.kr. Langstærsti tekjuliðurinn kom af viðskiptum við skemmtiferðaskip eða 114 m.kr.

Eignir félagsins um síðustu áramót námu 20,8 m.kr. og skuldir 15,2 m.kr. Skuldlaus eign var þá því 5,6 m.kr.

Umræddir styrkir ríkisins voru veittir vegna covid19 og eru til að mæta tekjutapi vegna faraldursins. Benda má því á að tekjur Vesturferða muni aukast þegar áhrifa covid19 gætir ekki og taka verður mið af því við verðmat fyrirtækisins.

Verði afkoma Vesturferða á þessu ári svipuð og í fyrra má ætla að hagnaðurinn verði 10-15 m.kr. og jafnvel meiri verði umsvifin í ferðaþjónustunni meiri og skuldlaus eign hækki þá í 15 – 20 m.kr. Á þennan mælikvarða verður framtíðarvirði hlutar Ferðamálasamtaka Vestfjarða langtum meira en þær 1,5 mkr. sem söluverðið er.

Henný Þrastardóttir vildi ekkert láta hafa eftir sér þegar Bæjarins besta hafði samband við hana og vildi ekki gera frekari grein fyrir verðmati félagsins.