Tungumálatöfrar: árleg ganga á Ísafirði á laugardaginn

Frá hátíðinni 2018.

Þeir sem leggja leið sína í Edinborgarhús kl.10 á laugardagsmorgun geta átt von á sannkallaðri sumarhátíð þar sem söngur, dans og gleði mun ráða ríkjum og bragðlaukar verða kitlaðir. Töfragangan er uppskeruhátíð barna sem taka þátt í Tungumálatöfrum og Töfraútivist þessa vikuna með það að markmiði að læra íslensku í gegnum leik og list. 

Alls voru 57 þátttakendur á námskeiðunum og 15 tungumál voru töluð fyrir utan íslensku. Í ár var unnið með fuglaþema og munu þátttakendur sýna afrakstur vinnu sinnar í göngunni og með skemmtun á Silfurtorgi þar sem göngunni lýkur. Eftir sýninguna verður boðið upp á matarupplifun í Neðstakaupstað þar sem foreldrar barnanna bjóða upp á gómsæti frá öllum heimshornum. Það er tvöföld eftirvænting í bænum eftir að Töfragangan og matarupplifunin féll niður vegna Covid í fyrra. 

Tungumálatöfrar hófu göngu sína á  Ísafirði árið 2017 fyrir 5 – 11 ára fjöltyngd börn og er nú orðinn fastur liður í sumarstarfsemi bæjarfélagsins. Tungumálatöfrar byrjaði sem íslenskunámskeið fyrir íslensk börn sem búa erlendis. Fljótlega varð samtal á milli ólíkra hópa innflytjenda og foreldra íslenskra barna sem töldu að þörf væri á að útvíkka hugmyndina. Þannig sameinast nú innflytjendur allra landa á námskeiðinu. Námskeiðið hefur notið síaukinna vinsælda og 2020 hófst Töfraútivist fyrir eldri krakka þar sem lögð er áhersla á að skoða náttúruna og leika sér í henni. 

Verkefnið er unnið í samstarfi við menningarmiðstöðina Edinborg á Ísafirði og lögð áhersla á aðgengi allra bæjarbúa. Þar hefur munað um framlag fiskvinnslufyrirtækjanna Íslandssöga, Klofnings og HG sem hafa boðist til að greiða þátttökugjöld fyrir börn starfsmanna sinna. Verkalýðsfélögin Verkvest og Sjómanna- og verkalýðsfélag Bolungarvíkur styrkt verkefnið myndarlega ásamt Ísafjarðarbæ og Rauða Krossinum Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

DEILA