Tálknafjörður: Vegagerðin þarf að lagfæra nýjan vegarkafla við Norður Botn

Í Norður Botni í Tálknafirði er fullkomnasta seiðaeldisstöð landsins. Framkvæmd upp á 4 milljarða króna.

Vegagerðin segir að verið sé að vinna að lagfæringum á nýjum vegarkafla sem lagður var í fyrra í Tálknafirði. Segir í svari Vegagerðarinnar að það hafi því miður verið vandræði með holumyndun strax i upphafi en nú er stefnt að því að styrkja þennan kafla enn frekar til bæta ástandið.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta lagði Vegagerðin um miðan október í fyrra hart að verktaka í Norður Botni í Tálknafirði að leggja slitlag á endurunninn vegarkafla, og það var gert.  Slitlagið óðst upp í vetur og vegurinn varð nær ófær og ónýtur, og ekkert nema hjólför, samkvæmt lýsingu á ástandi vegarins.

Í stað þess að láta fræsa upp verkið og endurvinna það, var safnað saman vegagerðarköllum víða að og settu þeir malbik úr pokum í vegarkaflann, og að lokum kom klæðningarbíll og smurði yfir. Eftir stendur mjög ósléttur vegur með hjólförum og skvompum, einkum kaflinn frá brúnni uppundir gamla kaflann í Hálsgötunni, sem liggur upp á Mikladalinn. Þá mun grjótvörn í kringum nýja brú vera verulega ábótavant og takmarkað magn af grjóti til staðar.

DEILA