Strandabyggð: meirihlutinn neitar að taka mál á dagskrá

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Þorgeir Pálsson, oddviti neitaði að taka á dagskrá sveitarstjórnarfundar á þriðjudaginn erindi frá fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum  dagsett 2. ágúst 2022 , en þar er ítrekuð krafa þeirra um svör við bréfi sínu frá 31. maí og benda þeir á að nú sé oddviti settur undir stjórnsýslu-og upplýsingalög og beri skylda til að svara erindum sem honum berast. Vilja sveitarstjórnarmennirnir fyrrverandi að núverandi oddviti færi rök fyrir ásökunum, sem hann hefur sett fram, um ýmis brot sem þau eigi að hafa framið séu bornar fram að nýju, og hafi verið endurteknar af meirihluta sveitarstjórnar á sveitarstjórnarfundi.

Fulltrúar A listans í sveitarstjórn Strandabyggðar bókuðu að A-listinn krefðist þess að meirihluti sveitarstjórnar svari þessu bréfi, einkum í því ljósi að þeim er skylt að svara erindum íbúa.

A-listinn óskaði eftir að málið yrði tekið fyrir sem afbrigði á fundinum. Þorgeir Pálsson oddviti hafnaði beiðni um afbrigði með þeim rökum sem lögð voru fram á fundi nr. 1333. Jafnframt tók oddviti taka fram að í síðasta bréfi frá fyrrum sveitarstjórn séu meiningar til annara í núverandi sveitarstjórn sem eiga ekki aðild að þessum deilum og mun oddviti leita til lögfræðings sveitarfélagsins varðandi bréf þessi.

A listinn bókaði þá að listinn mótmælti harðlega að oddviti hefði hafnað því að taka málið á dagskrá fundarins og segir í bókuninni að „Það er ólíðandi að oddviti Strandabyggðar brjóti ítrekað sveitarstjórnarlög, samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar og sniðgangi Siðareglur Strandabyggðar.“

Oddvitinn benti hins vegar á að ef minnihlutinn væri ósáttur við þessa málameðferð, væri honum frjálst að senda inn formlega kvörtun til innviðaráðuneytisins.

Uppfært kl 13:28. Þorgeir Pálsson, oddviti vill árétta að það var oddviti, ekki meirihlutinn sem hafnaði beiðni A lista um erindi á síðasta sveitarstjórnarfundi. Aðrir í meirihluta hafa enga beina aðkomu að þessu máli; aðeins hann og fyrrverandi sveitarstjórn.

DEILA