Sameining sýslumannsembætta: ekki nauðsynleg segir stjórn Byggðastofnunar

Stjórn Byggðastofnunar segir í umsögn sinni um drög að frumvarpi dómsmálaráðherra sem fækkar sýslumannsembættum úr níu í eitt að ekki verði séð „með augljósum hætti að nauðsyn sé á þessum miklu stjórnsýslubreytingum til að ná kynntum markmiðum um bætta þjónustu og fjölgun verkefna í landsbyggðunum.“

Stjórn Byggðastofnunar segir að um sé að ræða stóra kerfisbreytingu með gagngerri endurskoðun skipulags, sem framselji vald úr héraðsbundnum stjórnsýslueiningum sýslumanna inn í miðstýrða einingu.

Þykir stjórninni ástæða til að benda á mikilvægi þess að halda forræði og yfirstjórn verkefna opinberrar stjórnsýslu í byggðum landsins.

Stjórnin lýsir ánægju með þau áform að fjölga opinberum verkefnum á landsbyggðinni, en segir ekki sýnt fram á að
áformum um slíkan tilflutning verkefna til eflingar starfsemi í landsbyggðunum verði ekki við komið í núverandi
stjórnskipulagi héraðsbundinna sýslumanna. „Þau verkefni sem hafa verið flutt til sýslumannsembætta hafa verið vel leyst innan núverandi fyrirkomulags.“

Stjórn Byggðastofnunar telur mikilvægt að halda verðmætum og eftirsóttum stjórnunarstörfum í stjórnsýslu ríkisins dreifðum um byggðir landsins og telur að hægt sé að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í frumvarpinu um að bæta þjónustuna og gera hana enn skilvirkari innan núverandi stjórnsýslufyrirkomulags, ekki síður en fyrirhugað er með miðstýrðari einingu.

Loks telur stjórnin það álitaefni hvort frumvarp dómsmálaráðherra nr. 122/2022 samræmist markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 sem samþykkt var á Alþingi 15. júní síðastliðinn. Í aðgerð A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði er lögð áhersla á að opinber þjónusta í héraði verði efld, atvinnutækifærum fjölgað og ríkisrekstur bættur. Í verkefnislýsingu kemur fram að starfsemi sýslumannsembætta um land allt og opinber þjónusta í héraði verði efld með betri nýtingu innviða, þ.m.t. stafrænnar tækni, húsnæðis og mannauðs.

DEILA