Reykhólahöfn: viðgerð til bráðabirgða lauk innan sólarhrings

Frá framkvæmdum við viðgerðina. Myndir: Vegagerðin.

Gengið var rösklega til verks við viðgerð til bráðabirgða á höfninni á Reykhólum sem skemmdist á miðvikudaginn. Innan sólarhrings lauk henni og þá var hægt að koma krana, sem verksmiðjan notar við losun, af bryggjunni.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að stálþilsbryggjan sé yfir 50 ára gömul og var stálið orðið verulega tært, með mikið af götum sem takmarkaði burðarþol bryggjunnar. Framkvæmdir við endurbyggingu voru þegar hafnar þegar hún hrundi. Í vetur mun svo nýtt stálþil verða rekið niður framan við bryggjuna. Það er hannað fyrir meira viðlegudýpi heldur en núverandi bryggja. Framkvæmdin er inn á samgönguáætlun og hefur hafnadeild Vegagerðarinnar umsjón með framkvæmdum fyrir hönd Reykhólahrepps en verkkaupi verksins er hafnasjóður Reykhólahrepps. Kostnaður við framkvæmdirnar er um 300 m.kr.

DEILA