Ögur: hleðslustöð fyrir rafbíla

Ögur. Mynd: Ögur Travel.

Í Ögri var tekin í notkun fyrir tæpum mánuði 22 kw hleðslustöð fyrir rafbíla. Hún er opin öllum. Borgað með Ísorkuappi eða Ísorkulykli rétt eins og í hleðslustöðvum Orkubús Vestfjarða.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Ögur Travel segir að fyrirtækið hafi sett upp stöðina á eigin kostnað, um hálfa milljón króna. Í Ögri geta ferðalangar því hlaðið rafbílinn sinn meðan þeir stoppa í kaffihúsinu og njóta veitinganna þar. Síðan stöðin var sett upp hafa 40 bílar nýtt sér aðstöðuna og verið hlaðnir.

Þá er boðið upp á gönguferðir og kajakferðir. Halldór sagði að það sé endalaus eftirspurn ef þessum ferðum. Hann var að koma úr 7 daga kajakferð með Bandaríkjamenn og nefndi sem dæmi nýlega 5 daga ferð með Dana um Djúpið. Gönguferðir eru skipulagðar í samræmi við óskir viðskiptavina, sem Halldór segir vera fremur Íslendinga ólíkt því sem við á um kajakferðirnar. Aðspurður um ferðasumarið fyrir Ögur Travel sagði hann að það hefði verið frábært.

Hleðslustöðin er við samkomuhúsið.

DEILA