Ísafjarðarbær: skipulagsnefnd vill ekki fiskeldi í Jökulfjörðum

Jökulfirðir. Horft til austurs. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipulags- og mannvirkjanefnd segir í umsögn sinni um tillögu svæðisráðs að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði að nefndin telji það ekki samræmast því að Hornstrandir eru friðlýst svæði að heimila uppbyggingu á hafsæknum iðnaði í Jökulfjörðum.

Þá segir nefndin í umsögn sinni að sá hluti strandlínu Jökulfjarða sem er utan friðlands, þ.e. strandlínan frá Bjarnarnúpi og inn í botn Hrafnfjarðar, sé hverfisverndarsvæði í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og á náttúruminjaskrá Umhverfisstofnunar.

Nefndin telur mikilvægt að haldið verði í og hlúð að þeirri óbyggðaupplifun sem kostur gefst á í Jökulfjörðum og Hornstrandafriðland.

Óþarfi að burðarþolsmeta Jökulfirði

Þá segir: „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur ekki undir þær raddir sem hafa heyrst að áður en skipulagið verði staðfest verði að liggja fyrir fleiri upplýsingar eins og fást t.d. með burðarþolsmati vegna fiskeldis eða áhættumati. Nefndin telur óþarfa að burðarþolsmeta Jökulfirði þar sem það er skýr afstaða nefndarinnar að fiskeldi verði ekki leyft í Jökulfjörðum. Markmið verndar Jökulfjarða og Hornstrandafriðlandsins er ekki bara byggð á náttúruvernd, heldur er einnig verða að halda í huglæg verðmæti eins og óbyggðaupplifun sem passa illa inn í reiknilíkön og viðskiptaáætlanir en eru engu að síður mikil verðmæti sem fara engan veginn saman við uppbyggingu á iðnaði.“

Loks segir í umsögn nefndarinnar að Þar sem Ísafjarðarbær er eina aðliggjandi sveitarfélag að svæðinu, “ leggur skipulags- og mannvirkjanefnd mikla áherslu á að sjónarmið Ísafjarðarbæjar verði leiðandi í ákvörðunum um reitina.“

Umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar fer nú til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

DEILA