Ísafjarðarbær: rólegt yfir stjórnsýslunni

Óvenjurólegt hefur verið yfir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar nú í sumar. Aðeins hafa tveir bæjarstjórnarfundir verið haldnir frá sveitarstjórnarkosningunum 14. maí. Næsti fundur verður ekki fyrr en 1. september og verður þá liðinn hálfur þriðji mánuður frá síðasta fundi, sem var 16. júní.

Meðan bæjarstjórnin er í sumarleyfi fer bæjarráð með hlutverk hennar og getur leitt mál endanlega til lykta. Undanfarnar vikur hefur bæjarráðið verið í sumarleyfi. Síðasti fundur þess var 18. júlí og verður ekki fundur fyrr en næsta mánudag, þann 15. ágúst. Verða þá liðnar fjórar vikur milli funda.